Nokkur æviatriði Jóns Bjarnasonar og Önnu Kristófersdóttur

Í niðjatalinu er að finna kafla eftir Hermann Jónsson um nokkur æviatriði Jóns og Önnu sem ritaður var 1987. Hann fer hér í heild sinni.

I
Jón Bjarnason var fæddur í Hörgsdal, Hörgslandshreppi á Síðu, Vestur-Skaftafellssýslu 14. apríl 1887. Hann var sonur Bjarna Bjarnasonar, bónda og hreppsstjóra í Hörgsdal Bjarnasonar bónda og hreppsstjóra á Keldunúpi á Síðu og konu hans Helgu Pálsdóttur prófasts í Hörgsdal Pálssonar bónda og spítalahaldara á Hörgslandi, umboðsmanns Kirkjubæjarklaustursjarða, síðast bónda á Elliðavatni, Jónssonar. Jón var næstyngstur af 15 börnum þeirra Helgu og Bjarna. Jón ólst upp í Hörgsdal en bjó þar síðan og átti þar heima í fjörutíu ár.

Anna Kristófersdóttir var fædd að Breiðabólsstað í Hörgslandshreppi á Síðu 15.apríl 1891. Hún var dóttir Kristófers bónda og pósts á Breiðabólsstað Þorvarðarsonar prests að Holti undir Eyjafjöllum, síðar prófasts að Prestbakka á Síðu, Jónssonar og konu hans Rannveigar Jónsdóttur bónda í Mörk í Kirkjubæjarhreppi á Síðu Bjarnasonar.

Anna var ellefta barn þeirra Kristófers og Rannveigar, en þau eignuðust alls 13 börn á þeim 15 árum sem þau bjuggu á Breiðabólstað. Tvíbýli var á Breiðabólstað og því jarðnæði lítið. Tók Kristófer því að sér að flytja póst milli Prestbakka á Síðu og Borgarfells í Skaftártungu. Í einni slíkri póstferð drukknaði Kristófer í Svínadalsvatni, sem er jökulfljót er fellur fram austan Skaftártungu. Var það 5. maí 1893. Rannveig varð þá að hætta búskap og fór með flest börnin að Mörk til foreldra sinna. En fljótlega fóru tvær systurnar, Sigríður, sem var elst, fædd 1879, og Anna til föðursystur þeirra, Önnu Þorvarðardóttir að Eyvindarholti undir Eyjafjöllum og manns hennar, Sighvats Árnasonar, bónda og alþingismanns. Í Eyvindarholti dvöldu systurnar til ársins 1901, en þá giftist Sigríður Bjarna i Hörgsdal, sem var elstur barna þeirra Helgu og Bjarna hreppstjóra, og hófu þau þá búskap í Hörgsdal. Anna, sem þá var 10 ára, fór með systur sinni að Hörgsdal og ólst þar upp og átti eftir að dvelja þar 26 ár.

Þann 17.júlí 1908 gengu þau í hjónaband Anna Kristófersdóttir, þá sautján ára, og Jón Bjarnason, tuttugu og eins árs, en þau voru þá bæði til heimilis í Hörgsdal. Þau voru skyld að 2. og 3. að frændsemi, þar sem móðir Jóns, Helga Pálsdóttir var hálfsystir Sigríðar Pálsdóttur, ömmu Önnu, en Sigríður var gift séra Þorvarði í Holti, síðar á Prestbakka sem fyrr greinir.

Ári síðar eða 1909 fóru þau að búa sér, þó að þau væru enn á heimili Sigríðar og Bjarna. Það var eigi fyrr en vorið 1922 að þau fluttu í lítinn bæ, sem þau byggðu fyrir austan bæjargilið í Hörgsdal.

Á þessum árum, 1908 til 1927, eignuðust þau hjónin 14 börn sem öll fæddust í Hörgsdal, þar af fjögur í bænum fyrir austan bæjargilið. Þau misstu eitt barna sinna í Hörgsdal, Kristjönu, er dó á fimmtánda aldursári úr berklum, 19.apríl 1925 á Breiðabólstað, sem þá var læknissetur.

Vorið 1922 fór dóttir þeirra Sigrún, þá á 10. aldursári að Múlakoti á Síðu til föðursystur sinnar, Helgu Bjarnadóttur og manns hennar Þorláks Vigfússonar bónda og hreppsstjóra og ólst hún síðan upp á heimili þeirra hjóna.

Haustið 1922 og næsta vetur var Jón veikur og lá alllengi rúmfastur. Mun það hafa valdið því, að fyrsta barn þeirra, er fæddist fyrir austan læk, Páll, fæddur 23.október, fór tólf vikna gamall í fóstur á heimili Sigríðar og Bjarna í vestari bænum og ólst hann upp hjá þeim hjónum síðan.

Það gefur auga leið að miklir erfiðleikar hafi steðjað að og þröngt hafi verið í húsi þeirra hjóna, Önnu og Jóns, á búskaparárum þeirra í Hörgsdal um tæplega tuttugu ára skeið. Húsakynnin voru þröng og ófullkomin og ekki var um sjálfstætt jarðnæði að ræða. Nokkrar slægjur og jarðarafnot fengust ávallt í landi Hörgsdals en heyja handa búpeningi varð að afla þar sem slægjur var að fá í nágrenni og það stundnum all fjarri. Var búið því smátt og litlir möguleikar til stækkunar. Og eigi rættist úr með jarðnæði fyrr en 1927 og skal nú að því vikið.

II

Það var í byrjun árs 1927 að önnur jörðin á Keldunúpi í Hörgslandshreppi, vesturbærinn, var laus til ábúðar, en þar var tvíbýli. Eigandi jarðarinnar var Kristófer Kristófersson, bróðir Önnu í Hörgsdal, þá búandi á Þverá á Síðu. Hann leigði þeim hjónum jörðina frá vordögum 1927. Þann 2.maí var flutt að Keldunúpi og var þá yngsta barn þeirra hjóna, Kristjana, fjögra vikna. Jón var þá fjörtíu ára en Anna 36 ára að aldri. Þau voru því bæði enn í góðum starfsaldri. Var og hafist handa um endurbætur á jörðinni og stækkun búsins. Elstu börnin voru farin að heiman til vinnu, en þau yngri að vaxa og þroskast til starfa við bústörfin. Í þau fimmtán ár er þau Jón og Anna bjuggu á Keldunúpi var stöðugt unnið að endurbótum á jörðinni, einkum ræktun og endurbótum á jarðarhúsum. Og eftir því sem árin liðu batnaði aðstaðan til búskapar og afkomu heimilisins.

Á Keldunúpi eignuðust þau hjónin síðasta og fimmtánda barn sitt, Ólafíu Sigríði, f. 21. maí 1929.

Þann 19. september 1937 komu á heimilið að Keldunúpi tvö dótturbörn Önnu og Jóns, börn Sigrúnar, Rafn, tveggja og hálfs árs fæddur 7. apríl 1935, og Anna Jóna, átta mánaða, fædd 18. janúar 1937. Hún ólst síðan upp hjá afa sínum og ömmu en Rafn fór 28. júlí 1940 að Prestbakkakoti til móður sinnar og manns hennar, Þorbergs Jónssonar. Dvaldi Rafn þar í nokkurn tíma en kom þá aftur til afa síns og ömmu og ólst þar upp síðan.

Í blaðagrein að Jóni látnum lýsti Gísli Brynjólfsson prófastur að Kirkjubæjarklaustri heimilisháttum á Keldunúpi þannig: ,,Það var loks árið 1927, sem Anna og Jón fengu jörð til ábúðar – vesturbæinn á Keldunúpi. Það var lítil flutningsjörð en hæg og farsæl til ábúðar. Þar var kristsbú í kaþólsku. Sólar nýtur þar vel í skjólríkum hvamminum við brekkurætur milli núpsins og Steðjans. Þar grænkar jafnan fyrst á vorin og þar byrjaði Jón oft slátt á undan öðrum, fékk góða snemmslegna töðu, sem verkaðist vel á löngum björtum dögum uppúr Jónsmessu. Á Keldunúpi búnaðist Jóni vel, þrátt fyrir fyrir ómegð. Hann var einkanlega natinn búmaður, ræktaði jörð sína af iðjusemi og gætti gripa sinna af alúð og umhyggju. Hann hafði þessa gömlu reglu, að vísu óskráða í dagbók sinni: Árla í rekkju árla upp rís, en hann lifði eftir henni vetur sumar, vor og haust og honum gekk aldrei verk úr hendi firr. Húsfreyjan var sparsöm og nýtin, börnin dugleg og kappsöm og komu fljótt til starfa bæði heima og heiman. Gekk því vel búskapurinn og afkoman batnandi eftir því sem stærð jarðarinnar leyfði.”

Þrátt fyrir batnandi hag fjölskyldunnar á Keldunúpi eftir því sem árin liðu og aðstæður allar leyfðu var eigi hjá því komist að leita annars jarðnæðis, er eigandi jarðarinnar taldi sig þurfa á henni að halda til eigin þarfa. Kom það mjög til umræðu og álita að flytja burt af Síðunni og út í sveitir nær þéttbýlissvæðum við Faxaflóa. En eigi varð af því og það ráð tekið að flytja að Geirlandi í Kirkjubæjarhreppi á Síðu, á hluta jarðarinnar sem hét að Mosum og verður því nú lýst nánar.

III

Eigendur jarðarinnar Geirlands voru Sigfús Vigfússon bóndi og kona hans Rósa Pálsdóttir, búsett þar. Eigi hafði verið búið að Mosum, sem var gamalt býli og hluti jarðarinnar Geirlands, síðan 1903. Síðustu ábúendur voru Bjarni Jónsson frá Mörk, móðurbróðir Önnu og kona hans Sigríður Þorvarðardóttir, hálfsystir föður Önnu, er bjuggu þar í sextán ár. Þegar hér var komið, var því ekkert íbúðarhús að Mosum né önnur jarðarhús. Þegar flutt var búferlum að Mosum 1942 var því sest að í bráðabirgðahúsnæði. En um sumarið var reist íbúðarhús í túninu á bakka Geirlandsár, en þetta sumar var áin brúuð. Íbúðarhúsið byggðu Þorbergur Jónsson, bóndi á Prestsbakkakoti, tengdasonur Jóns og Önnu og sonur þeirra Jakob, þó að önnur börnin hefðu þar og lagt hönd að verki. Var flutt í húsið á árinu. Önnur jarðarhús fyrir búfé voru reist á þessu ári og næstu árum.

Ræktun var í allgóðu ástandi á þeim jarðarhluta sem fenginn var til afnota. En á næstu árum var hún aukin og bætt. Anna og Jón bjuggu að Mosum í átján ár eða til ársins 1960. Við búskapinn nutu þau aðstoðar barna sinna og uppeldisbarna sem voru heima um heyskapartímann. Mosarnir urðu hið snotrasta býli þegar árin liðu og smám saman jókst notkun véla við heyskap og bústörf.

Á síðari hluta þessa tímabils dvaldist að Mosum í mörg ár dótturdóttir Önnu og Jóns, Þuríður Bára, fædd 1945, dóttir Rannveigar og Sólmundar Einarssonar. Rafn Valgarðsson, dóttursonur Önnu og Jóns vann alla tíð heima á Mosum við búskapinn, bæði vetur og sumar. Um miðjan 6. áratuginn kom að Mosum Halldóra Sigurrós, eiginkona Rafns. Þar fæddust og tvö fyrstu börn þeirra, Árni f. 1957 og Jón f. 1958. Má því segja að búskapurinn á Mosum hafi að verulegu leyti hvílt á herðum Rafns síðustu árin, er Anna og Jón bjuggu þar.

Þegar börnin fóru fleiri að heiman til þéttýlis við Faxaflóa og Anna og Jón að eldast og heilsa Önnu fór hrakandi , varð að ráði að hætta búskap og var það árið 1960 að þau fluttu til Kópavogs. Var þá Jón 73 ára og Anna 69, og höfðu þau þá stundað búskap í yfir 50 ár.

IV

Anna og Jón settust að í Kópavogi í litlu húsi að Hlíðarvegi 19, nú númer 29a við þá götu. Var það í skjóli barna þeirra, sem þá voru mjög mörg búsett í Kópavogi. Með þeim bjó þar Helga, elsta dóttir þeirra sem ávallt hafði dvalið heima hjá foreldrum sínum. Helga annaðist heimili foreldra sinna í Kópavogi. Bæði höfðu þau hjónin notið góðrar heilsu á æviskeiði sínu. En nú fór þrek Önnu að minnka eftir svo langt og strangt ævistarf og fór hún að lokum um skamman tíma á sjúkrahúsið Sólvang í Hafnafirði, þar sem hún andaðist 27. janúar 1967.

Jón vann í Kópavogi um árabil hjá Strætisvögnum Kópavogs við umsýslu og talningu á skiptimynt og farmiðum. Undi hann því all vel þó að hugurinn væri í átthögum og við liðna búskapartíð. En margir Síðumenn komu á heimili hans í Kópavoginum og börnin voru daglegir gestir. Um áttatíu og fimm ára aldur lét Jón af störfum, og má segja að ellin ein hafi loks bugað hann. Hann andaðist á Landspítalanum eftir skamma sjúkrahúsvist 10. desember 1977.

Bæði voru þau Anna og Jón jarðsett að Prestbakka á Síðu. Eftir að Jón andaðist bjó Helga dóttir hans ein í húsinu í Kópavogi, en þó síðustu árin við versnandi heilsu og á síðastliðnu ári 1986, fór hún til vistar á Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi.

Eftir að Anna og Jón fluttu frá Mosum ákváðu börn þeirra og fósturbörn að halda við og bæta íbúðarhús þeirra og gera það að sumarhúsi, þar sem þau gætu dvalið í átthögum hluta úr sumri. Var fenginn lóðarsamningur við eigendur Geirlands og lóð við húsið girt. Síðan hefir smám saman verið hafin gróðursetning á margskonar trjáplöntum á lóð hússins og er þar nú 27 árum eftir að búskap var hætt að Mosum vaxandi og áberandi gróðurreitur. Af hálfu barna og uppeldisbarna Önnu og Jóns er þessi starfsemi helguð minningu þeirra.

/ Hermann G. Jónsson