Ættarmótin

Hér eru birtir eldri textar, myndir og upplýsingar um ættarmót Mosafélagsins.

Mosaveislan mikla í Garðaholti 2017

Árið 2017 var ákveðið að halda góða veislu innan borgarmarkanna. Eftir nokkurn undirbúning var lendingin að leigja Garðaholt á Álftanesi undir síðdeigsgrillveislu sunnudaginn 10. sept. 2017. Gleðin fékk viðurnefnið Mosaveislan mikla! Skráning var mjög góð og mættu 128 manns, 89 fullorðnir og 39 börn og unglingar. Mótið hófst kl. 16.00 með hressingu og almennri samveru. Veðrið var frábært og kjöraðstæður til veisluhalda. Lambakjöt var grillað á nokkrum útigrillum sem leigð voru í Byko. Maturinn hófst um kl. 18 - kaffi og gos var í boði Mosafélagsins en fólk hvatt til að koma með eigin vínveitingar.

Bára Sólmundsdóttir rifjaði upp gamla tíma á Mosum og myndasýningu var varpað upp á vegg í félagsheimilinu.

Allir lögðust á eitt í veisluundirbúningi og hægt var að stilla verði mjög í hóf. Fullorðnir greiddu kr. 2.500. Börn og unglingar frá 7 ára til og með 14 ára greiddu 1.250 kr. og frítt var fyrir yngri. Myndin hér að ofan er tekin í Mosaveislunni miklu í Garðaholti.

Í nefndinni voru Jóna Sólmundsdóttir, Tjörvi Bjarnason, Sveinn Ingvi Einarsson, Jón Bjarni Björnsson, Ásta Björk Björnsdóttir, Þorbjörg Anna Steinarsdóttir, Páll Wolfram, Björg Alfa Björnsdóttir, Þorbergur Jónsson, Ragnheiður Gróa Hjálmarsdóttir og Margrét Hjálmarsdóttir.

Ættarmót sumarið 2011 - 24.-26. júní

Afkomendur Jóns Bjarnasonar og Önnu Kristófersdóttur frá Mosum héldu ættarmót að Þingborg í Flóahreppi, skammt austan við Selfoss, 24. – 26. júní 2011. Gist var á tjaldstæði á Þingborg - öll aðstaða er til fyrirmyndar enda löngu landsþekkt samkomuhús.

Formleg setning verður var kl. 15.00 á föstudegi þar sem allir komu saman í húsinu. Formaður nýtti tækifærið og fór yfir ástand Mosa með hliðsjón af gosinu í Grímsvötnum. Næsta ættarmótsnefnd var síðan kynnt áður en farfuglarnir yfirgáfu svæðið.

„Formið verður með sama sniði og áður, þ.e. að allir koma með hráefni í sameiginlega veislu. Enginn fær að borða einn í sínu tjaldi! Aðstaða til að grilla verður að sjálfsögðu á staðnum og sósa verður til staðar með kjötinu fyrir þá sem vilja. Óskað verður eftir grillmeisturum og annarri aðstoð sem þurfa þykir,“ sagði í auglýsingu frá nefndinni sem var þannig skipuð:

Björn Ingi Rafnsson, Sveinn Pálsson, Ólafur Guðmundsson, Birgir Hermannsson, Sveinbjörn Helgason, Jón Hrólfur Sigurjónsson, Guðjón Geirsson og Óskar Bjarnason.

Stóra ættarmótið - afkomendur Kristófers og Rannveigar - 26. júlí 2008 á Síðu

Sumarið 2008 var stórt ættarmót haldið á Síðunni þar sem saman komu afkomendur Kristófers og Rannveigar. Eftirfarandi bréf barst frá nefndinni um veturinn:

Kæru ættingjar.
Við undirrituð, afkomendur hjónanna Kristófers Þorvarðarsonar (1854-1893) bónda á Breiðabólstað á Síðu og konu hans Rannveigar Jónsdóttur (1860-1939) frá Mörk, ætlum að standa að ættarmóti austur á Síðu laugardaginn 26. júlí 2008 og heiðra minningu þeirra hjóna og genginna afkomenda þeirra. Þau Rannveig og Kristófer gengu í hjónaband 1. ágúst 1878 og eignuðust þrettán börn á fimmtán árum. Fjögur barnanna dóu í frumbernsku en sjö af þeim níu sem náðu fullorðinsaldri, eignuðust afkomendur. Eftir því sem næst verður komist teljast niðjarnir ekki færri en 540. Kristófer drukknaði í Eldvatni í póstferð aðeins 38 ára gamall. Hann var hraustur og reyndur ferðamaður og hafði meðal annars verið einn af fylgdarmönnum Englendingsins W.L. Watts í fyrstu ferðinni norður yfir Vatnajökul 1875. Eftir lát Kristófers fluttist Rannveig til foreldra sinna í Mörk með nokkur barnanna en flest voru send í fóstur til ættingja á ýmsum stöðum. Rannveig var sögð vel að sér og með afbrigðum ættfróð. Þrátt fyrir sáran aðskilnað í bernsku héldu systkinin alla ævi lifandi sambandi sín á milli og létu sér annt um hvert annað og afkomendurna. Auðfundið var að þessi systkin höfðu hlotið góðan heimanarf af því tagi sem mölur og ryð fá ekki grandað og ætíð minntust þau foreldra sinna með virðingu og kærleika. Hugmyndin að því að heiðra minningu þeirra Kristófers og Rannveigar er ekki ný af nálinni því vorið 1942 stofnaði eitt barna þeirra hjóna ásamt maka sínum svonefndan Rannveigarsjóð til minningar um „þau Rannveigu Jónsdóttur og Kristófer Þorvarðarson, sem bjuggu á Breiðabólstað á Síðu allan sinn búskap.“ og var skipulagsskrá hans staðfest af konungi. Stofnfé sjóðsins var tíu þúsund krónur (átta hundruð þúsund krónur að núvirði samkvæmt Hagstofunni). Tilgangur sjóðins var „að styðja skógrækt í Kirkjubæjar- og Hörgslandshreppum í Vestur-Skaftafellssýslu með því, að veita verðlaun til þeirra manna í hreppum þessum, sem skara fram úr í ræktun trjá- og skrúðgarða.“ Sjóðnum skyldi stjórnað af sýslumanninum í Skaftafellssýslum og oddvitum Kirkjubæjar- og Hörgslandshreppa. Skemmst er frá því að segja að Rannveigarsjóður með sín góðu markmið gleymdist fljótt og í umróti og óðaverðbólgu eftirstríðsáranna urðu fjármunirnir nánast að engu.

Á fyrirhuguðu ættarmóti næsta sumar höfum við fengið leyfi til að gróðursetja skógarlund í nafni hjónanna Rannveigar og Kristófers í landi Prestsbakkakots sem er hluti Suðurlandsskóga, en hjónin þar eru bæði af ættinni. Er það ekki góð tilhugsun að geta hvílst og borðað nestið sitt í lundinum okkar góða á leið um Síðuna í framtíðinni?

Í stórum dráttum höfum við hugsað okkur fyrirkomulag ættarmótsins laugardaginn 26. júlí 2008 þannig:

l) Komið verður saman í Prestsbakkakirkju eftir hádegi (dagskrá ófrágengin).
2) Farið að Prestsbakkakoti og hafin gróðursetning í lundinum okkar.
3) Kaffisamsæti og dagskrá til fróðleiks og skemmtunar í Félagsheimilinu Kirkjuhvoli. Einnig verður hugsað fyrir einhverju áhugaverðu til að hafa ofan af fyrir yngri börnunum.

Ættarmótsnefnd 2008

Rannveig Jónsdóttir, Bjarni Ólafsson, Eiríkur Kristófersson, Elsa Theodóra Bjarnadóttir, Helga M. Bjarnadóttir, Margrét Eiríksdóttir,
Ólafía Ragnarsdóttir, Sigríður Nikulásdóttir og Ólafía Jakobsdóttir.


Mosaveislan mikla - Haldin í Garðaholti á Álftanesi, sunnudaginn 10. sept. 2017.