Skógrækt á Mosum

Mosafélagið hóf gróðursetningu í Kyllabrekkum árið 1990. Landið er 3,7 hektarar og girðingin um 1 km.

Skógrækt við Kylla á Síðu , eftir Bjarna Ólafsson

Þeir sem eiga leið inn í Krókinn fram hjá bæjunum Mörk og Geirlandi og halda norður með Geirlandsánni taka fljótlega eftir talsverðum skógarlundum við Mosahúsið og hjá veiðihúsi Stangveiðifélags Keflavíkur. Það þarf ekki að koma á óvart að fólk skuli hafa komið sér upp trjám til skjóls og prýði við slíka sumardvalarstaði en sumir hafa reyndar undrast að vel skuli hafa gengið að rækta tré þarna því að norðanáttin nær sér vel á strik á þessum stað. Þegar horft er upp að bæjarfjallinu Kylla vekur athygli að þar er skógur í uppvexti, bæði við brekkufótinn og alllangt upp í hlíðar Kyllans. Hæst eru trén á móts við Mosana en skógur er gróskumikill suður eftir öllum hlíðunum og alveg suður fyrir Kylla. Sumarbústaðargirðing Mosanna nær ekki upp að þessari skógrækt og er 50-100 metra breitt tún Geirlandsbænda þarna á milli. Áður en lengra er haldið er rétt að upplýsa að Mosafélagið, afkomendur Jóns Bjarnasonar og Önnu Kristófersdóttur, hefur komið að þessari skógrækt í Kyllabrekkum. Bæði hefur félagið borið nokkurn kostnað af ræktuninni en einkum hafa margir félagsmenn lagt hönd á plóginn við skógræktina með öllu því amstri sem henni fylgir. Verður hér gerð grein fyrir okkar hlut í þessu starfi sem líklegt er að sjái því meira stað sem lengra líður frá og trén stækka.

Hver á landið og girðinguna?

Landið sem gróðursett er í við Kylla er eign bændanna á Geirlandi, þeirra Gísla Kjartanssonar og Erlu F. Ívarsdóttur. Með samkomulagi við þau girti Rannsóknastöðin á Mógilsá nokkra hektara lands á árunum 1990-1992 og ætlaði það til tilrauna í sína þágu. Mál æxluðust þannig að Mógilsármenn notuðu girðinguna næstum ekki neitt en tilraunastarfsemi Skógræktarinnar er þess í stað rekin í landi Prestbakkakots austan Geirlandsár. Tilgangur Mosafélagsins er að halda við Mosahúsinu sem sumarbústað og stunda skógrækt á Mosum. Þar sem skógræktargirðing Mógilsár er innan við 100 metra frá gamla bænum og að u.þ.b. hálfu leyti innan gömlu Mosagirðingarinnar fannst félagsmönnum tilvalið að finna skógræktaráhuganum farveg með því að fá að setja niður tré í þennan reit, enda löngu fullgróðursett í sumarbústaðarlandið. Rannsóknastöðin og Geirlandsbændur heimiluðu „Mosafélaginu“, sameignarfélagi í eigu afkomenda síðustu ábúenda á jörðinni Mosum, að setja niður hríslur í landinu. Fjölskylda hjóna á Geirlandi setti niður 100 birkiplöntur í landið 1990 eða 1991. En skógrækt Mosafélagsins hefur haldið áfram á hverju ári síðan 1990 með góðu samþykki Geirlandsbænda og Mógilsármanna. Mosafélagið hefur alloft sent Mógilsá skýrslu yfir skógræktina, Suðurlandsskógum tvisvar og skógarverði Suðurlands síðast.

Stærð skógræktarinnar, lögun hennar og girðingin sjálf

Samkvæmt loftmynd er landið 3,7 hektarar að stærð og girðingin líklegast um 1 km. Landið er allt á lengdina, ofan við tún og í túnjaðri á Geirlandi. Girðingin er ekki sérlega regluleg og að hluta til koma klettabelti ofan við landið í stað girðingar. Brekkan er bröttust þar sem snýr að Mosunum og þar er landið mjóst. Það sem snýr að Geirlandi er breiðara og þar eru allsléttar spildur þar sem vel er ökufært á landbúnaðarbílum. Rannsóknastöðin á Mógilsá lét girða landið eins og áður sagði og lauk við verkið 1992. Girðingin er þokkalega góð og hefur reynst ágætlega fjárheld. Þó þarf að fylgjast vel með henni á hverju vori og endurbæta eftir snjóþyngsli og stundum hrun úr klettum. Mest var gert við vorið 1999 en þá brotnuðu staurar á um 100 metra kafla vegna stórgrýtis sem hrundi um veturinn úr klettum Kylla. Allt eftirlit með girðingunni og kostnað vegna viðgerða hingað til hefur Mosafélagið annast.

Skógræktarkostir landsins

Mikill hluti landsins innan skógræktargirðingarinnar eru brattar brekkur, grýttar á köflum því að skriður eru í grunni en með smáklettum upp úr. En jarðvegur er víðast nógur og þar er öflugur grasvöxtur og blómgróður síðan landið var girt gegn ágangi búfjár. Nokkurt sléttlendi er víðast við brekkufót og um þriðjungur landsins er tún og uppgrónir matjurtagarðar. Mýri er í einu horni, líklega hálfur ha, en hún er ekki framræst. Sérstaða landsins er sú að gras og blómgróður er þar víðast svo mikill að smáplöntur eiga litla möguleika nema sérstaklega sé að þeim búið. Þess vegna hefur mest verið gróðursett af nokkurra ára plöntum úr pottum eða pokum. Vegna kostnaðar höfum við sjálf alið þær flestar upp í hæfilega stærð, ýmist bakkaplöntur, sem við höfum sett í stærri ílát, eða stiklinga sem hafa fengið að vaxa upp í sérstökum beðum, 2-3 ár. Sauðatað hefur verið látið með öllum trjám og svart plast (1x1 m) látið í kringum mörg þeirra þar sem grasið hefur verið ágengast. Flestum barrtrjám hefur verið skýlt með áburðarpokum sem strengdir eru á þrjá hæla og op á skýlinu snýr oftast móti suðri. Pokar endast oft tvö til þrjú ár en eru þá rifnir af og plantan þarf eftir það að sjá um sig sjálf. Aldrei hefur verið gróðursett með staf en grafnar misumfangsmiklar holur eftir aðstæðum. Útlendur áburður (kornáburður svo sem blákorn) hefur lítið verið notaður í Kyllabrekkum. Þó hefur oft verið dreift smávegis um leið og gróðursett er. Stundum hefur svo sem hálfum poka verið fórnað árlega á tré í vexti en það hefur ekki verið gert skipulega. Stundum hafa liðið nokkur ár án þess að borið hafi verið á með þessum hætti.

Gróðursetningarlið

Félagar úr Mosafélagi og gestir þeirra hafa gróðursett og hafa oftast farið eina til tvær helgarferðir á hverju vori til skógræktar og svo eina haustferð til að ganga frá skóginum fyrir veturinn. Oft hafa allmargar holur verið grafnar og settur í þær áburður (sauðatað) í haustferðum. Algengt hefur verið að 5-10 manns hafi unnið að gróðursetningu í hverri ferð. Ekki fer hjá því að einhverjir taki forystu í svona starfi og óhætt er að nefna Ólaf Jónsson sem að aldri var næstur neðan við miðjan systkinahópinn, börn þeirra Jóns og Önnu. Hann sá um að safna liði í gróðursetningarferðir á vorin og mun í upphafi hafa hvatt mest til skógræktarinnar, bæði í Mosalóðinni og í skógræktargirðingunni. Systkini hans komust flest í að setja niður tré og hlú að þeim og má vel sanna verk þeirra með myndum sem teknar voru á staðnum. En yngri aldursflokkar fengu sannarlega að taka til hendinni og gæti verið að slá mætti á tölu „skógarmanna“ með því að telja gesti í vorverkaferðum í skógrækt. Allt er það skráð í gestabókum á Mosum. Ungviðið hefur líka lært að meta skóginn, rétt eins og aldamótakynslóðin frá 1900. Þegar sexþúsundasta plantan var komin í jörð fylltist langafadrengur Ólafs og nafni hátíðleika og stemmingu og spurði: „Eigum við ekki að fara með Faðirvorið?“

Hugmyndafræði skógræktarinnar

Það er augljóst að Kyllaskógræktin er af yndisskógategundinni. Lögð hefur verið áhersla á að hafa tegundir fjölbreyttar og gróðursetja þannig að harðgerð tré veiti hinum viðkvæmari skjól í uppvextinum. Víðitegundir, birki og aspir hafa farið á undan öðrum sortum. Í seinni tíð hafa verið gróðursett innan um skóginn viðkvæm tré og runnar sem ætlað er að gleðja fólk og fugla. Má nefna garðahlyni, blæaspir, hegg, blóðhegg, silfurreyni, úlfareyni, hengibirki, rósir, berjatré svo sem sólber og stikilsber. Tré eru sett allþétt í Kylla svo að ráðlegt er að fylgjast vel með því að skógurinn verði ekki að þykkni eða flækju sums staðar. Þá þarf að klippa eða saga eftir hentugleikum. Nú er í skógrækt á Íslandi oftar gróðursett fremur dreift til þess að spara sér grisjun en þar á móti kemur að þétt gróðursetning veitir gott skjól fyrstu árin. Undirgróður hefur verið settur í elsta hluta skógarins, m.ö.o. þar sem snýr að Mosunum. Þar má telja nokkur hundruð loðvíðiplöntur, myrtuvíði, rósir og berjarunna. En að mestu er þó undirgróður upprunalegur í brekkunni: blágresi, mjaðarjurt, hrútaber og sóley, svo eitthvað sé nefnt – fyrir utan öflugar grastegundir. Lúpína var snemma sett í skriðuna á móti austri og hefur grætt hana upp. En margir eru þó smeykir um að lúpínan fari víðar en ætlast var til og hefur henni verið haldið í skefjum. Yfirleitt er ekki gróðursett efst í brekkuna. Mosamegin réði væntanlega að fólk vildi ekki láta tré skyggja á klettabeltið í Kyllanum. Geirlandsmegin var farið að ósk Gísla bónda sem bað um að hávaxinn trjágróður yrði ekki settur þar sem hann gæti breytt svip Kyllans efst. Nokkur rjóður og stígar eru í skógræktargirðingunni. Fyrst er að nefna stíg sem Ólafur Jónsson lagði drög að þegar gróðursetning var komin vel á veg í austurbrekku Kylla á móts við Mosa. Hugmyndin var að af þessum stíg mætti ná góðu útsýni yfir skóg og land en líka komast greiðlega um skóginn þar sem brekkan er brött og hætta er á að misstíga sig. En lokatakmark var að eftir stígnum væri þægilegt að ganga á Kylla sem er vinsæl þegnskylda dvalargesta á Mosum. Stígurinn liggur frá gönguhliði við brekkufót og er ýmist lagður tjörguðum tröppum þar sem bratt er eða hann er láréttur grasstígur þar sem hann hlykkjast eftir brekkunni. Ólafi tókst ekki að vera með í að ljúka stígnum upp á Kyllann en leiðin þangað er nú greið því að hlið var sett á girðinguna á hvítasunnu vorið 2008 þar sem stígurinn kemur að henni sunnan í Kylla. Annar göngustígur er fyrir neðan brekkuna frá gönguhliði að ökuhliði. Hann var ekki lagður sérstaklega en tré hafa verið klippt þannig að fært er á milli þeirra eftir stígnum, jafnvel með hjólbörur. Frá ökuhliðinu er síðan allgóður ökuslóði sem nær alveg syðst í girðinguna en hann er varla fólksbílafær. Þrjú rjóður er rétt að nefna þótt víða sé rými sem ekki hefur verið gróðursett í. Fyrst er rjóður á miðri leið upp á Kylla á tröppustígnum en þaðan er ágætt útsýni. Allstórt rjóður er fyrir innan ökuhliðið og þar er hægt að snúast með ökutæki. Þriðja og stærsta rjóðrið er undir brekkunni norðan við vatnsból Geirlands. Þar verður upplagt að halda samkomur þegar trjágróður skýlir enn meira en nú er. Loks er rétt að nefna að þótt skógarspilda hafi verið kennd við Pál Jónsson og gjarnan kölluð Pálsrjóður er þar ekki autt svæði að ráði. En þar vann Páll með öðrum að gróðursetningu vorið 1999 og þegar útför hans var gerð í maí 2000 var farið beint þaðan og sett niður allmörg grenitré á þennan stað.

Ráðgjafar og velgerðarmenn skógræktarmanna í Kylla

Samskipti við Rannsóknastöðina á Mógilsá hafa verið nokkur. Við sendum þangað yfirlit yfir gróðursetninguna eins og hún stóð 1993, 1998, 2000 og 2002. Fulltrúar okkar hafa tvisvar heimsótt stöðina til skrafs og ráðagerða og þar fengum við gefins 3-400 stiklinga af góðum kvæmum af Alaskaösp: jóru og súlu. Við höfum sent skýrslur yfir starfsemina til Suðurlandsskóga á Selfossi 1998 og 2000 og Ólafur Jónsson heimsótti bækistöð Suðurlandsskóga þar árið 1999. Í samtali undirritaðs við Björn B. Jónsson og Hall Björgvinsson 3. ágúst 2002 komumst við að þeirri niðurstöðu að samantekt á borð við þessa ætti frekar að senda skógarverði Suðurlands en Suðurlandsskógum og það haust var því Hreini Óskarssyni skógarverði send skýrslan en Mógilsá samrit. Við höfum fylgst með skógrækt Björns Jónssonar á Sólheimum í Landbroti og höfum heimsótt hann tvisvar til þess að læra af honum. Reyndar gaf hann okkur fyrstu stiklingana af Alaskavíði sem við komum síðan sjálf upp. Sjálf höfum við þreifað okkur áfram með hvað best gangi í ræktun. Finnsk kona frá Helsinki, Heidi Palho (f.1923), heimsótti Mosana 1998 og hreifst af skógræktinni þar. Hún vildi leggja eitthvað af mörkum í skógræktinni og gaf okkur strax fimm heggplöntur (þrjár eru við girðinguna beint á móti Mosahúsinu, ein neðarlega við stíginn og sú fimmta við stóra steininn hjá ökuhliði) og sendi okkur svo 100 tré af svartelri frá Finnlandi sem lifa flest og hafa dafnað vel norðan við stóra rjóðrið.

Afföll í skógræktargirðingunni

Óhætt er að segja að trjáplöntur í Kyllabrekku hafi hafst vel við. Sum árin hefur næstum engin planta drepist en þó er algengt að einhver vanhöld verði. Veturinn 1992-93 kom norðan skaraveður sem sleit sumum trjám inn í merg. Gljávíðisveppurinn hefur spillt fyrir eftir aldamótin en aðallega hefur hann skemmt trén í heimalóð. Grasmaðkur hefur lagst á tré syðst í girðingunni og líklega má kenna honum um vanhöld á Alaskavíði þar en einnig virðist hann verða undir í samkeppni við mjaðarjurtina sem er mjög öflug syðst. Óútskýrð vanhöld urðu á ungu greni sumarið 2003 eftir mjög góðan vetur.

Skýrsluhald vegna skógræktar

Hér verða sýndar skýrslur áranna 1997 og 2006 eins og þær voru lagðar fyrir Mosafund sem sýnishorn. Fyrri skýrslan er margföld í roðinu. Í fyrsta lagi er í henni greinargerð fyrir 1995 og 1996. Hún var svo endurbætt um haustið 1997 til þess að hún yrði tilbúin fyrir næsta Mosafund (1998) en henni fylgir skýrsla til Suðurlandsskóga sem einnig er birt hér undir. Síðari skýrslan er um árið 2005 og er sú seinasta, a.m.k. í bili.

Skógræktarsamantekt - gerð í apríl 1997 fyrir Mosafund - PDF
Skógræktarsamantekt - gerð í mars 1998 fyrir Suðurlandsskóga - PDF
Skógræktarsamantekt - gerð í apríl 2006 fyrir Mosafund - PDF

Mynd af skógræktargirðingunni - pdf

Lögð hefur verið áhersla á að hafa tegundir fjölbreyttar og gróðursetja þannig að harðgerð tré veiti hinum viðkvæmari skjól í uppvextinum. Víðitegundir, birki og aspir hafa farið á undan öðrum sortum. Í seinni tíð hafa verið gróðursett innan um skóginn viðkvæm tré og runnar sem ætlað er að gleðja fólk og fugla.